Tóta

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Nýja líf mitt er byrjað. Ég er flutt í glæsivilluna í Århus og er að byrja í háskólanum ekki á morgun heldur hinn. Ég er bara nokkuð sátt við sjálfa mig, lífið og tilveruna og bjartsýn á framhaldið...

Síðustu dagarnir í Køben voru samt ekki sérlega skemmtilegir. Það ringdi og rigndi og nýja, fína hjólinu mínu, sem ég hafði tekið ástfóstri við, var stolið meðan ég var í vinnunni. Ég varð svo leið, hringdi í mömmu og pabba grátandi (veit ekki allveg hvað ég bjóst við að þau gætu gert í stöðunni!!) og þurfti svo að bíða heillengi eftir strætó sem var fullur af pirrandi fyllibyttum! En ég átti sem betur fer líka góðar stundir. Gamla fólkið var svo krúttlegt og sagði svo sæta hluti við mig síðasta kvöldið í vinnunni, ég fór út að borða með Kristine vinkonu minni úr lýðháskólanum og ég fékk mér kveðjubjór með Loga, Jóni og Arnþóri.

Á mánudeginum komu svo mamma og pabbi. Það var svo notalegt að fá þau í heimsókn og geta sýnt þeim heimilið mitt í Køben. Við drukkum hvítvín og horfðum á bíómynd, röltum um miðbæinn og fórum út að borða. Eftir að hafa bókstaflega troðfullt fína stationbílinn sem við leigðum keyrðum við til Fjóns. Þar neyddumst við til þess að senda mömmu í lest til Århus svo við kæmum restinni af dótinu mínu, sem var í geymslu hjá Dorte, í bílinn!! Dorte hefur ekki mikið breyst og það var voða gaman að sjá sveitina hennar og hitta fjölskylduna.

Laufey og nýja íbúðin tóku á móti okkur með opnum örmum. Næstu dagar fóru svo í það að þeytast um bæinn í hinar ýmsu húsgagnaverslanir til að kaupa allt það mikilvægasta...og annað kannski ekki allveg jafn nauðsynlegt ;) Það var mjög gaman, en vááá hvað ég var búinn á því eftir vikuna! Við fórum þrisvar sinnum í IKEA, tvisvar í Jysk, tvisvar í Bilka, tvisvar í Shop it, tvisvar í Idé møbler og svo mætti lengi upp telja!! En ég skemmti mér mjög vel og það er að verða annsi heimilislegt hjá okkur.

Eftir að mamma og pabbi kvöddu og héldu heim á leið hef ég bara notið þess að vera í fríi og gera heimilislegt. Ég missti mig reyndar aðeins í Sex and the city. Það er skammarlegt að segja fra því en ég horfði á fyrstu 12 þættina í röð á einu kvöldi!! Ég var reyndar að prjóna á meðan svo það var enn auðveldara að gleyma sér í þessu. Svo missti ég mig líka í bakstri. Ég bakaði stanslaust í 5 klukkutíma svo allar þrjár skúffurnar í frystinum okkar eru stútfullar og ég kom samt ekki tveimur pokum fyrir! Svo nú eigum við fullt af skinkuhornum og bollum og ciabatta brauði til að hafa í nesti í skólann næsta árið!! Brauð er dýrt fyrir fátæka námsmenn...
Ég prófaði líka líkamsræktina sem er bókstaflega í garðinum okkar (hef ekki getað hreyft mig síðan vegna strengja!) og er að spá í að gerast meðlimur. Þrái að byrja að hreyfa mig aftur og komast í form og ekki skemmir nú fyrir að ég þurfi varla að labba meira en 10 skref til að komast þangað...kaldhæðnislegt að segja það en ég veit bara að ef það er stutt í ræktina þá verður yfirstíganlegra að drífa sig á staðinn. Ég er líka búin að hitta Olgu tvisvar eftir að ég kom. Það er svo gott að vita af henni hérna. Ég efast ekki um að við eigum eftir að ná að bralla ýmislegt skemmtilegt saman í vetur.

Svo er jú skólinn bara allveg að fara að byrja...ég er ekki búin að átta mig á því samt! Þetta er skrítið. Ég er bara búin að vera svo mikið að taka eitt skref í einu og einbeita mér að því að pæla ekkert of mikið í hlutunum og bara að reyna að njóta alls... að ég er einhvern veginn ekkert búin að fatta að ég sé að byrja í háskóla og hvað það eigi eftir að hafa í för með sér. En það er líka bara mjög fínt!! Það er tímasóun að vera að stressa sig núna...ég veit að það mun koma fyrr en seinna. En ég finn það samt hvað ég er feginn að komast í gang núna. Mér finnst ég nógu mikið komin úr formi sem námsmaður eftir eins árs frí! Ég var að komast að því að ég er eini Íslendingurinn á 1.árinu sem ég er pínu svekkt yfir. Það hefði verið gott að hafa einn sem maður getur spjallað við á íslensku, sérstaklega svona til að byrja með þegar maður skilur ekki neitt!! En ég hef samt Leu til að halda í höndina á mér. Hún ætlar einmitt að gista hjá mér á morgun svo við förum samferða fyrsta skóladaginn☺ Bólivíugellurnar mínar eru nefnilega að koma í hádegismat til mín á morgun. Ég hef ekki séð Kirstine og Marie síðan við Lea yfirgáfum frumskóginn. Þær fóru aftur til Sucre eftir ferðalagið sitt og heimsóttu fjölskylduna mína. Mamman mín fór að gráta þegar hún fór að tala um mig því hún saknaði mín svo mikið (ég fór auðvitað sjáf að gráta þegar þær sögðu mér frá því). Þær tóku myndir af fjölskyldunni fyrir mig svo ég er mjög spennt að sjá hvort krakkarnir hafi ekki stækkað.

Netið er ekki komið svo það er ástæðan fyrir því að ég hef ekkert verið að hafa samband við fólk eða blogga. Svo verð ég víst á fullu núna næstu daga því það er kynningarvika í skólanum og fullt af veislu. En ég ætla nú samt að reyna að skella einhverju hérna inn annað slagið...ég veit allaveganna að það eru nokkrum sem finnst gaman að vita hvað ég er að brasa ;)

Kys og kram

laugardagur, ágúst 18, 2007

Århus...jeg kommer snart :)

Þá er að koma að því...eftir 3 daga flyt ég til Århus. Nýja fína heimilið bíður mín ásamt minni yndisfögru systur og Björgu. Þær fengu lyklana í gær svo þær eru fluttar inn. Ég var mjög bitur yfir því að vera í vinnunni og geta ekki verið með þeim í þessu öllu. En þær lofuðu að halda ekkert upp á þetta fyrr en ég kæmi :) Svo núna er bara að bíða aðeins lengur og hlakka til.

Ég á bara tvær vaktir eftir, svo þetta er allt að bresta á. Svo koma elskulega foreldrar mínir í heimsókn á mánudaginn. Það verður ydislegt að fá þau í heimsókn. Við ætlum að hafa það huggulegt í Køben í einn dag og svo ætlum við að leigja bíl til að koma öllu dótinu mínu til Århus. Við ætlum að fara í heimsókn í sveitina til Dorte ( herbergisfélagi minn á lýðháskólanum) á Fjóni á leiðinni. Hún geymdi dót fyrir mig eftir lýðháskólann sem ég ætla að sækja. Svo ætla þau að hjálpa okkur systrum við að þeytast um bæinn og kaupa í búið. Það verður svo gaman hjá okkur. Við Laufey erum að fara yfir um af spenningi!! Það verður svo kósý hjá okkur. Ég hef ekki tekið eina einustu mynd síðan ég kom til Danmerkur en ég lofa að setja inn fullt af myndum af nýja heimilinu mínu ☺ vííííí

Annars er það að frétta að ég skellti mér heim til Akureyrar í góða, en alltof stutta óvænta heimsókn til Akureyrar. Bara fjölskyldan vissi af komu minni. Það var svo gaman að sjá svipin á öllum þegar ég birtist...Siggu Ástu svipur var bestur ;) Það var eiginlega alltof notalegt að koma heim. Ég fylltist allgjörri fortíðarþrá...langaði alltí einu bara að fara til baka í tímann og festast þar, sem var ekki nógu gott því ég var búinn að vera lengi að finna tilhlökkunina fyrir framtíðinni. Skyndilega þá langaði mig bara að búa aftur hjá mömmu og pabba í áhyggjuleysinu, fara í sund, leigja spólu og borða yfir mig af nammi, hafa það huggulegt með æskuástinni og fara á fyllerí með vinkonunum...bara allt þetta gamla og góða sem maður tók sem sjálfsögðum hlut og fannst ekkert merkilegt þá. Svo mér fannst erfitt að fara til baka og var leið fyrstu dagana eftir að ég kom út...en núna er tilhlökkunin komin aftur :) En allir sem ég sá heima á Akureyri, takk fyrir yndislega daga, og þið hin, leiðinlegt að eg hafi ekki hitt ykkur!!

Ég var að tala við Leu vinkonu og hún hafði verið að fá bréf frá hákólanum með dagskrána fyrstu vikuna...mín bíður annsi mikið fyllerí get ég sagt ykkur!!! Váááá hvað verður örugglega gaman. Ég hélt að alvaran myndi bara byrja frá fyrsta degi en nei nei, það er byrjað á naflaleikjum og fylleríi. Danir eru náttúrulega bara ótrúlegir. Svo verður farið í tveggja daga ”hyttetur” þar sem á að hrista fólki saman. Það er galakvöld og bjórkvöld og ég veit eki hvað og hvað. En samt eru fyrirlestrar líka frá því snemma á morgnana líka...þetta verður áhugavert. Ég er nú samt komin með gott áfengisúthald eftir Bólivíuferðina og þetta sumar svo þetta blessast nú allt saman. Mér finsnt svo gaman að það sé mikið lagt upp úr að fyrstu dagarnir verði ”félagslegir” því þá verð ég fljót að kynnast fólki. Það verður líka spennandi að sjá hvort það verði margir fleiri Íslendingar á fyrsta ári.

En jæja, ég þarf að hengja upp þvott og svo ætla ég að kíkja í bæinn áður en ég fer í vinnuna...
Næsta færsla verður líklega skrifuð frá nýju íbúðinni minni á Århus...vúúúhhúúú

föstudagur, ágúst 03, 2007

Það hafa aldrei skipst svona mikið á skin og skúrir í mínu lífi eins og síðustu vikurnar. Eins og hægt er að lesa á síðustu tveim færslum. Ég las þær sjálf í gegn núna áðan og ég gat ekki annað en hlegið að sjálfri mér!

En þetta er nú allt á réttri leið. Ég verð spenntari og spenntari yfir því að flytja og byrja í háskólanum en reyndar líkara stressaðari og stressaðari! Þetta er nú annsi stórt skref svo það er nú kannski ekki skrítið. Sérstaklea því það styttist óðum og ég hef ekki fundið húsnæði og á ekki rúm eða borð eða stól eða neitt! En það reddast nú allt

Ég hef gert fátt annað síðan um helgina en að vinna og vera í húsnæðisleit. Úfff hvað þessi leigumarkaður hefur mikið stress og leiðindi í för með sér. Ég er búin að skrá mig á síðu á netinu þar sem ég fæ mail fullt af nýjum íbúðum og herbergjum sem koma á markaðinn og ég get leitað sjálf líka. Svo ég hef setið fyrir framan tölvuna frá því ég vakna á morgnana og þangað til ég fer í vinnuna, í matarpásunni í vinnunni og þegar ég kem heim á kvöldin. Maður þarf nefnilega að hafa hraðann á því íbúðirnar eru oft leigðar út innan örfárra tíma efir þær birtast á netinu!! Það eru oft 100 áhugasamir sem hafa samband sama dag og íbúðin er sett á markaðinn...þetta er hreinlega geggjun. Við Laufey skoðuðum eina um helgina sem var sjúklega flott en líka mjög dýr, svo við erm að vonast til að finna einhverja aðra. Við bindum miklar vonir við tvær, eina sem Laufe ætlar að skoða í köld og aðra á morgun. Ég ætla semsagt að leigja með Lubbu systur og Björgu vinkonu hennar. Ég held að það geti bara orðið voða huggulegt.

En já ég skellti mér til Århus um síðustu helgi. Það var mjög gott að fá aðeins að hitta Lubbu. Við bjuggum hjá Selmu og Krissa sem var mjög notalegt. Þau eru svo sæt. Ég hitti Olgu á kaffihúsi sem var mjög gaman. Hún verður í Århus í vetur og sagðist ætla að ofsækja mig, svo það er frábært! Ég veit líka að Kristine vinkona mín úr lýðháskólanum komst inní listasögu í Århus og Kirstine í hjúkrun svo ég þekki nú fleiri en ég hélt. Ég áttaði mig samt á því þegar ég fór til Århus hvað ég mun sakna Kaupmannahafnar mikið. Ég mun fara héðan með sorg í hjarta. Ég virklilega elska þessa borg og finnst ég eiga heima hér. Og ég mun sakna hennar enn meira þegar ég veit af Möggu minni hér...en ég fæ vonandi tíma til að koma í heimsókn annað slagið. Ég fæ örugglega tækifæri til að búa hérna aftur einhvern tímann í framtíðinni. Það er aldrei að vita. Ég veit líka að Århus er fín borg og allir tala svo vel um að búa þar. Hún er mikil háskólaborg svo ég veit að um leið og ég verð búin að kynnast fólki og svona, þá á ég án efa eftir að líka vel.

Ég fór út að borða og á kaffihús með nokkrum krökkum úr lýðháskólanum um daginn. Það var svo gaman að sjá þau eftir allan þennan tíma. Margt sem hefur breyst í lífi okkar allra og margt að tala um. Ég fór líka út að borða með Arnþóri sem var voða gaman. Í gær leit sólin aðeins sjá sig svo Bjartmar bauð mér út að borða á Nyhavn. Það var voða huggulegt og við spjölluðum og spjölluðum. Svo fengum við okkur ís og skoðuðum mannlífið. Ég keypti mér líka loksins hjól í gær! Það er notað en í góðu standi og voða fínt finnst mér. Ég þyrfti eiginlega að fara að grafa upp myndavélina og skella inn nokkrum myndum fljótlega.

Það var erfitt að segja öllum í vinnunni að ég væri að hætta. Það voru allir mjög svekktir en samglöddust auðvitað yfir því að ég hefði komist í háskólann. Gamla fólkið var svo krúttlegt þegar ég sagði þeim að ég hefði komist inn, þessar elskur. Æji hvað ég mun nú sakna þeirra.
Ég ætla að láta þetta nægja í bili. Ég þarf að fara að versla og svo ætla ég aðeins að spóka mig á nýja hjólinu áður en ég fer í vinnuna:) Næsta blogg verður sögur af gamla fólkinu;)

Knús til allra